Síðdegis 4. janúar 2025 gekk tunglið fyrir Satúrnus frá Íslandi séð. Við fönguðum þennan sjaldséða atburð á mynd.
Síðdegis laugardaginn 4. janúar 2025 gekk tunglið fyrir Satúrnus frá Íslandi séð. Nálægð tunglsins og Satúrnusar þetta kvöld vakti þónokkra athygli og höfðu margir samband til að forvitnast um hvaða stjörnu um væri að ræða.
Satúrnus er svo agnarsmár að vart sést að um reikistjörnuna er að ræða. Í sjónauka var stjörnumyrkvinn glæsilegur, þar sem hringarnir blöstu við auk Títans, stærsta tungls Satúrnusar.
Stjörnuljósmyndarinn Gísli Már Árnason, annar af umsjónarmönnum Iceland at Night, fangaði augnablikið á myndir sem hann setti svo saman.
Björn Jónson fylgdist sömuleiðis vel með myrkvanum og tók þessa mynd:
„Ég fylgdist með þessu gegnum stjörnusjónauka og hóf svo myndatökur nokkru eftir að Satúrnus birtist á ný. Myndatakan byrjaði aðeins seinna en til stóð vegna tæknilegra vandamála en hér er mynd sem tekin var rúmum hálftíma eftir að Satúrnus birtist á ný. Um er að ræða um 200 mynda stafla af vídeómyndum. Satúrnus var unninn sér og tunglið sér,“ sagði Björn.
Stutt er síðan tunglið myrkvaði Mars frá Íslandi séð en það gerist aftur 9. febrúar næstkomandi.
Tunglið myrkvar Satúrnus næst frá Íslandi séð aðfaranótt þriðjudagsins 9. desember árið 2036. Tunglið gengur þá fyrir Satúrnus kl. 04:49 og birtist Satúrnus á ný kl. 05:56 þann morgunn. Þegar myrkvinn á sér stað verða Satúrnus og tunglið í Ljónsmerkinu.
Laugardagskvöldið 18. janúar verða Venus og Satúrnus saman á kvöldhimninum í suðvestri. Líttu eftir þeim frá 18:00 til 21. Venus er talsvert bjartari og hvítglóandi en Satúrnus sem er mun daufari og gulleitur. Í handsjónauka er útsýnið glæsilegt og dugir lítill stjörnusjónauki til að sýna hringa Satúrnusar.
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.
Gísli Már Árnason er stjörnuljósmyndari og annar af umsjónarmönnum Iceland at Night.