Deildarmyrkvi á sólu, tunglmyrkvi og bjartar reikistjörnur prýða íslenska stjörnuhiminninn árið 2025
Árið 2025 verður frábært fyrir áhugafólk um stjörnuskoðun. Við fáum að sjá talsverðan deildarmyrkva á sólu, almyrkva á tungli og fallegar samstöður bjartra reikistjarna, svo nokkuð sé nefnt. En byrjum á tunglinu.
Árið 2025 hefst á fallegum stjörnumyrkva þegar tunglið gengur fyrir Satúrnus síðdegis þann 4. janúar. Satúrnus hverfur á bak við tunglið kl. 17:19 og birtist á ný tæpri klukkustund síðar, kl. 18:09. Tunglið er vaxandi sigð í ársbyrjun og skammt frá skín Venus skært. Fylgstu með myrkvanum með stjörnusjónauka. Útsýnið verður alveg sérstaklega glæsilegt!
Þann 18. janúar verða Venusar og Satúrnus saman á kvöldhimninum í suðvestri. Líttu eftir þeim frá 18:00 til 21. Venus er talsvert bjartari og hvítglóandi en Satúrnus sem er mun daufari og gulleitur. Í handsjónauka er útsýnið glæsilegt og dugir lítill stjörnusjónauki til að sýna hringa Satúrnusar.
Á sama tíma skín Júpíter skært hátt á himni í suðaustri og seinna suðri í stjörnumerkinu Nautinu, skammt frá Aldebaran. Mars er í austri kl. 21, rauðgulur undir tvíburunum Kastor og Pollux.
Sunnudagskvöldið 9. febrúar gengur tunglið fyrir reikistjörnuna Mars frá Íslandi séð. Myrkvinn hefst kl. 18:30 og lýkur klukkan 19:27, þegar Mars birtist á ný hægra megin við tunglið.
Að morgni 14. mars sést almyrkvi á tungli frá Íslandi. Myrkvinn sést reyndar ekki í heild sinni hér á landi, því orðið er bjart þegar almyrkvanum lýkur og tunglið við sjóndeildarhring, skömmu fyrir sólarupprás.
Deildarmyrkvinn hefst kl. 05:09 að morgni. Tunglið er almyrkvað kl. 06:26 þegar farið er að birta. Myrkvinn er svo í hámarki kl. 06:59 en þá er Máninn við sjóndeildarhring í vestri. Almyrkvanum lýkur kl. 07:33 þegar tunglið er komið undir sjónbaug og því ekki sjáanlegt.
Morgunhanar ættu sannarlega að taka daginn snemma þennan föstudagsmorgunn.
Tveimur vikum síðar, að morgni laugardagsins 29. mars 2025, verður deildarmyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi. Þegar mest lætur hylur tunglið tæplega 70% af skífu sólar frá Reykjavík séð. Þessi fallegi deildarmyrkvi er lokaæfingin fyrir almyrkvann 12. ágúst 2026.
Í Reykjavík hefst deildarmyrkvinn kl. 10:06 og nær hámarki klukkustund síðar eða kl. 11:05. Deildarmyrkvanum lýkur svo kl. 12:07.
Til að sjá myrkvann er nauðsynlegt að nota sólmyrkvagleraugu. Þú getur keypt þau hjá solmyrkvagleraugu.is Þar getur þú líka fengið sólarsíur fyrir handsjónauka og stjörnusjónauka.
Um miðjan ágúst er aftur orðið nógu dimmt til þess að stjörnur sjáist á himni eftir sumarið. Þriðjudaginn 12. ágúst – þegar nákvæmlega eitt ár er í almyrkvann – verður glæsileg samstaða Venusar og Júpíters á norðausturhimni. Þótt tvíeykið skíni mjög skært er samstaðan afar lágt á lofti yfir Íslandi. Því þarf að gæta þess að hvorki fjöll né háar byggingar byrgi sýn. Líttu eftir dýrðinni í norðaustri um og upp úr klukkan 02:00.
Að morgni föstudagsins 19. september er ærin ástæða til að vakna eldsnemma og gjóa augunum til himins. Í austri birtist stórglæsileg samstaða minnkandi mánasigðar og Venusar sem er ægibjört og við hlið Regúlusar, skærustu stjörnu Ljónsins. Best er að horfa eftir þeim frá kl. 04:30 að sólarupprás. Útsýnið er fallegt með berum augum, enn glæsilegra í handsjónauka.
Í nóvember 2025 hverfa hringar Satúrnusar tímabundið sjónum okkar. Frá Jörðu séð verður Satúrnus á rönd svo örþunnir hringarnir verða nær ósýnilegir. Þetta gerist á 15 ára fresti. Eftir það mun halli hringa Satúrnusar frá Jörðu séð aukast á ný og reikistjarnan endurheimtir glæsileik sinn.
Um miðjan desember ár hvert þýtur Jörðin í gegnum slóð sem smástirnið 3200 Phaethon hefur skilið eftir á ferðalagi sínu um sólina. Þegar það gerist verður loftsteinadrífan Geminítar til. Geminítar eru gjarnan besta loftsteinadrífa ársins. Þegar mest lætur, 13.-14. desember, má sjá nokkra tugi stjörnuhrapa á klukkustund. Tunglið truflar ekkert þetta kvöld svo aðstæður verða ákjósanlegar, ef veður leyfir.
Þegar reikistjarna er í gangstöðu (e. opposition) er hún í beinni línu við sólina og Jörðina. Þá rís hún í austri við sólsetur, er hæst á lofti í suðri um miðnætti og sest við sólris. Við gagnstöðu eru reikistjörnurnar næst Jörðu, skærastar á himni og liggja þá best við athugun.
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.