Norðurljós kvikna á hvaða árstíma sem er og hvenær sem er yfir nóttina. Hins vegar ertu líklegri til að sjá norðurljós í kringum jafndægur og í kringum klukkan ellefu á kvöldin.
Á Íslandi stendur norðurljósatímabilið yfir frá miðjum ágúst til aprílloka. Með öðrum orðum þegar nógu dimmt er til þess að stjörnur og norðurljós sjáist. Yfir dimmasta tíma næturinnar snemma í ágúst og snemma í maí er hægt að sjá björt norðurljós í rökkrinu.
Í maí, júní og júlí eru sumarnæturnar of bjartar til að norðurljós sjáist.
Athuganir og mælingar sýna að þú ert að meðaltali líklegri til að sjá norðurljós nálægt jafndægrum. Þar af leiðandi eru september/október og mars/apríl bestu norðurljósamánuðirnir. Þetta kemur vel fram í þeim gögnum sem hér sjást frá Segulmælingastöðinni í Leirvogi og sýna áhrif sem kennd eru við Russell-McPherron.
Hafðu í huga að hér er um meðaltal að ræða. Virk sól getur hæglega valdið fallegum og tíðum norðurljósum milli jafndægra. Svo í nóvember, desember, janúar og febrúar sjást alloft glæsilegar sýningar líka. Það fer bara allt eftir sólinni.
En hvers vegna eru mánuðirnir í kringum jafndægur bestir? Ástæðan er möndulhalli Jarðar miðað við sólina á þeim tíma.
Í kringum jafndægur hallar hvorki norður- né suðurhvelið að eða frá sólinni. Jörðin er hornrétt á sólina sem þýðir að segulsvið Jarðar er því sem næst hornrétt líka miðað við sólvindinn. Það gerir segulsviðið okkar sérstaklega móttækilegt fyrir hraðfleygum sólvindi og kórónuskvettum. Bz suður þáttur sólvindsins er þar af leiðandi líklegri til að tengjast við norðurþátt segulsviðs Jarðar. Þetta er kallað jafndægraáhrifin.
Í kringum sólstöður í júní og desember veldur möndulhalli Jarðar því að segulsamtenging er ólíklegri. Þess vegna er að meðaltali minna um norðurljós í desember og janúar. Í kringum jafndægur getur jafnvel hægfara sólvindur tendrað falleg norðurljós.
Mælingar sýna að besti tími næturinnar til að sjá norðurljós er að meðaltali í kringum klukkan 23:00. Ef jarðsegulvirkni er há geta norðurljós sést fljótt eftir sólsetur og yfir nánast alla nóttina.
Grafið hér sýnir hvenær norðurljósin eru tíðust byggt á mælingum í Segulmælingastöðinni í Leirvogi. Eins og sjá má er líklegast að þú sjáir norðurljós á Íslandi milli klukkan 22:00 og 01:00 eða svo.
Norðurljósaferðir ættu því að eiga sér stað á þeim tíma.
Klukkan 23:00 er segulmiðnætti á Íslandi. Þá er segulpóllinn milli þín og sólarinnar.
Segulpólarnir eru ekki í línu við landfræðilegu pólana, svo segulmiðnætti er ekki á sama tíma og eiginlegt miðnætti af klukkunni að dæma. Á Íslandi er segulmiðnætti í kringum kl. 23 í Reykjavík en 10:30 á Austurlandi.
Sólvindsagnirnar sem valda norðurljósunum streyma eftir segulsviðslínunum að pólsvæðunum frá segulhala segulsviðs Jarðar, á næturhliðinni. Við segulmiðnætti klukkan 23:00 hallar Ísland inn í átt að þessu svæði, þaðan sem agnirnar koma sem valda norðurljósunum.
Þess vegna eru norðurljósin að meðaltali algengust í kringum kl. 23.