Iceland at Night

Hvað er Kp-gildið og hvernig virkar það?

Útskýring á því hvernig Kp gildið tengist jarðsegulvirkni og norðurljósum

Kp-gildið lýsir því hve miklar segultruflanir verða af völdum sólvinds sem skellur á og hristir upp í segulsviði Jarðar. Kvarðinn nær frá 0-9 þar sem 0 merkir litlar sem engar segultruflanir en 9 meiriháttar. Kp gildið lýsir ekki hversu mikil, sterk, björt eða virk norðurljós verða. Kvarðinn er því ekki gagnlegur til að spá fyrir um eða lýsa norðurljósavirkni, sér í lagi undir norðurljósakraganum á Íslandi.

Kp gildið er ákvarðað út frá meðaltali segultruflana sem mældar eru yfir þriggja stunda tímabil yfir heilan sólarhring, frá 09-12, 12-15, 15-18 o.s.frv. Gögn frá gervitunglum og segulmælingastöðvum á Jörðinni eru notuð til þess og gerðar eru spár þrjá til 27 daga fram í tímann.

Gildi Kp-kvarðans eru eftirfarandi:

0 Rólegt

1 Rólegt

2 Lítilsháttar virkni

3 Lítilsháttar virkni

4 Virkt

5 Vægur stormur (G1)

6 Miðlungsstormur (G2)

7 Kröftugur stormur (G3)

8 Mjög öflugur stormur (G4)

9 Ofsafenginn stormur (G5)

Bókstafurinn K kemur frá þýska orðinu Kennziffer sem merki „kennistærð" en p stendur fyrir planetary. Kvarðann þróaði Julius Bartelsand árið 1949.

Er Kp-kvarðinn gagnlegur til að elta norðurljós?

Beautiful burst of aurora on a night when the global Kp value was low. Credit: Sævar Helgi Bragason

Í sannleika sagt er Kp-kvarðinn alls ekki gagnlegur mælikvarði fyrir norðurljósaunnendur. Í besta falli getur Kp-gildisspáin gefið grófa hugmynd um hvers er að vænta.

Ef spáð Kp-gildi fyrir tiltekið kvöld er 1 er ólíklegt að þú sjáir mjög litríka og kvika norðurljósasýningu. Ef spáð Kp-gildi er hins vegar 5 eru ágætar líkur á að sýning kvöldsins verði falleg. Málið er samt mun flóknara.

Kp-gildið sem birtist á vefsíðum og öppum breytist ekki þegar sólvindur skellur á Jörðinni. Útreiknað gildi breytist eftir á, þremur tímum síðar, þegar gögn hafa borist frá þrettán segulmælingastöðvum á háum og miðlægum breiddargráðum. Kp gildin sýna því fortíðina, ekki nútíðina og eru svo notuð til að giska á framtíðina.

Norðurljós kvikna í norðurljósakraganum eða -beltinu í kringum heimskautin. Þaðan sjást þau á hverju kvöldi, misbjört eins og við þekkjum. Kp-gildið getur ekkert sagt fyrir um komu sólvinds eða kórónuskvetta, hvað þá um staðbundnar hviður (e. substorms) innan kragans, þegar norðurljósin blossa skyndilega upp og verða hve fallegust.

Á rólegu kvöldi getur skyndileg sólvindshviða leitt til fallegra norðurljósa, að því er virðist upp úr engu, jafnvel þótt Kp-gildisspáin segi 1. Í að meðaltali 10-30 mínútur gæti virknin aukist skyndilega þannig að falleg norðurljós sjáist. Á því tiltekna tímabili er staðbundna K-gildið (sem er mælt í Leirvogi) mun hærra en hnattræna Kp-meðaltalsgildið á sama þriggja stunda tímabil sem hviðan birtist.

Þessu mætti líkja við að mæla vindhraða yfir þriggja stunda tímabil á Íslandi í heild sinni. Skyndileg vindhviða hér og þar hefur ekki endilega mikil áhrif á meðaltalið. Það gefur auga leið að slíkar upplýsingarnar eru því sem næst gagnslausar.

Þetta á sérstaklega við á haustin og vorin þegar jafnvel hægur sólvindur getur tendrað falleg norðurljós, þótt Kp-gildið lýsi litlum segultruflunum og rólegri nótt. Myndin hér sýnir einmitt falleg norðurljós þegar mælt Kp gildi var aðeins 1.

Svo ekki leggja of mikinn trúnað á Kp-gildisspá. Raunar, slepptu alfarið að pæla í Kp-gildinu þegar þú ert úti undir berum himni að elta norðurljós.

En hvað áttu þá að nota í staðinn?

Miklu gagnlegra er að líta til rauntímamælinga um geimveður, þ.e. hraða og þéttleika sólvindsins (hærra er betra) og stefnu og styrk segulsviðs sólvindsins (Bt og Bz norður/suður). Þær gefa margfalt betri vísbendingar um hvers er að vænta næstu klukkustundina eða svo. Þá er ákaflega gagnlegt að fylgjast með segultruflunum sem mælast í segulmælingastöðinni í Leirvogi, einmitt vegna þess að þar er um að ræða staðbundnar mælingar sem til dæmis norðurljósaöpp hafa ekki aðgang að.

Allar þessar upplýsingar er nú þegar að finna á icelandatnight.is.