Kp-gildið er kvarði frá 0-9 sem lýsir segultruflunum. Gildið lýsir ekki hversu mikil, sterk eða björt norðurljós verða.
Eitt allra versta ráðið sem norðurljósaunnendum og ferðafólki er veitt er að reiða sig á Kp-gildið sem nær frá 0-9. Kp-gildið lýsir hve miklar segultruflanir verða af völdum sólvinds sem skellur á og hristir upp í segulsviði Jarðar. Kp gildið lýsir hins vegar alls EKKI hversu mikil, sterk, björt eða virk norðurljós verða eða hve langt að þau sjást. Kvarðinn er því ekki gagnlegur til að spá fyrir um eða lýsa norðurljósavirkni, sér í lagi í norðurljósasveignum yfir Íslandi.
Kp gildið er:
Kp-kvarðinn nær frá 0-9 þar sem 0 merkir litlar sem engar segultruflanir en 9 meiriháttar. Gildi Kp-kvarðans eru eftirfarandi:
0 Rólegt
1 Rólegt
2 Lítilsháttar virkni
3 Lítilsháttar virkni
4 Nokkur virkni
5 Vægur stormur (G1)
6 Miðlungsstormur (G2)
7 Kröftugur stormur (G3)
8 Mjög öflugur stormur (G4)
9 Ofsafenginn stormur (G5)
Bókstafurinn K kemur frá þýska orðinu Kennziffer sem merki „kennistærð" en p stendur fyrir planetary. Kvarðann þróaði Julius Bartelsand árið 1949.
Eins og áður sagði er Kp-kvarðinn alls ekki gagnlegur mælikvarði á norðurljós. Í besta falli getur Kp-gildisspáin gefið grófa hugmynd um hvers er að vænta.
Ef spáð Kp-gildi fyrir tiltekið kvöld er 1 er ólíklegt að þú sjáir mjög litríka og kvika norðurljósasýningu. Ef spáð Kp-gildi er hins vegar 5 eru ágætar líkur á að sýning kvöldsins verði falleg.
Málið er samt mun flóknara.
Kp-gildið sem birtist á vefsíðum og öppum breytist ekki um leið og sólvindur skellur á Jörðinni. Útreiknað gildi breytist eftir á, þremur tímum síðar, þegar gögn hafa borist frá þrettán segulmælingastöðvum á miðlægum breiddargráðum. Kp gildin sýna þess vegna fortíðina, ekki nútíðina og eru svo notuð til að giska á framtíðina.
Norðurljósin kvikna í norðurljósasveignum í kringum heimskautin. Þaðan sjást þau á hverju einasta kvöldi, bara misbjört eins og við þekkjum. Kp-gildið getur ekkert sagt fyrir um komu sólvinds eða kórónuskvetta, hvað þá um staðbundnar hviður (e. substorms) innan kragans, þegar norðurljósin blossa skyndilega upp og verða fallegust.
Á rólegu kvöldi getur skyndileg hviða leitt til glæsilegra norðurljósa, að því er virðist upp úr engu, jafnvel þótt Kp-gildisspáin segi 1. Í að meðaltali 10-30 mínútur gæti virknin aukist skyndilega þannig að falleg norðurljós sjáist víða að. Á því tiltekna tímabili yrði staðbundna K-gildið (sem er mælt í Leirvogi) mun hærra en hnattræna Kp-meðaltalsgildið á sama þriggja stunda tímabil sem hviðan birtist.
Þessu mætti líkja við að mæla vindhraða yfir þriggja stunda tímabil á Íslandi í heild sinni. Skyndileg vindhviða hér og þar um landið hefur ekki mikil áhrif á meðaltalið. Það gefur auga leið að slíkar upplýsingarnar eru harla gagnlitlar.
Þetta á sérstaklega við á haustin og vorin þegar jafnvel hægur sólvindur getur tendrað falleg norðurljós, þótt Kp-gildið lýsi litlum segultruflunum og rólegri nótt.
Myndin hér undir sýnir einmitt falleg norðurljós þegar mælt Kp gildi var aðeins 1. Þetta er hviða sem varð til vegna þess að Bz-gildið sneri í suðurátt svo orka gat hlaðist upp í segulsviðinu, losnað og kveikt falleg norðurljós.
Svo ekki leggja of mikinn trúnað á Kp-gildisspá. Raunar, slepptu alfarið að pæla í Kp-gildinu þegar þú ert úti undir berum himni að elta norðurljós.
En hvað áttu þá að nota í staðinn?
Miklu gagnlegra er að líta til rauntímamælinga um geimveður, þ.e. hraða og þéttleika sólvindsins (hærra er betra) og stefnu og styrk segulsviðs sólvindsins (Bt og Bz norður/suður). Þær gefa margfalt betri vísbendingar um hvers er að vænta næstu klukkustundina eða svo. Því lægra sem Bz-gildið er, því meiri hamagangur verður á himni.
Þá er ákaflega gagnlegt að fylgjast með segultruflunum sem mælast í segulmælingastöðinni í Leirvogi, einmitt vegna þess að þar er um að ræða staðbundnar mælingar sem til dæmis norðurljósaöpp hafa sjaldnast aðgang að.
Allar þessar upplýsingar er nú þegar að finna á icelandatnight.is.