Iceland at Night

Almyrkvi á tungli 14. mars 2025

Ef vel viðrar sést almyrkvi á tungli frá Íslandi föstudagsmorguninn 14. mars

Að morgni föstudagsins 14. mars 2025 verður almyrkvi á tungli sjáanlegur frá Íslandi, ef veður leyfir. Tunglið sest áður en tunglmyrkvinn er yfirstaðinn, svo myrkvinn sést ekki í heild sinni hér á landi.

Almyrkvinn sést best frá Norður- og Suður-Ameríku og Kyrrahafi. Íslendingar sem þar eru ættu sannarlega að gjóa augunum til himins.

Tímasetningar tunglmyrkva í Reykjavík

  • 03:57: Hálfskuggamyrkvi hefst - tunglið gengur inn í hálfskugga Jarðar, lítið sem ekkert sést
  • 05:09: Deildarmyrkvi hefst - alskuggi Jarðar byrjar að færast yfir tunglið, vinstra megin frá okkur séð
  • 06:26: Almyrkvi hefst - tunglið tekur á sig rauðleitan blæ
  • 06:59: Almyrkvi í hámarki
  • 07:01: Dögun
  • 07:32: Almyrkva lýkur - tunglið er lágt á lofti þegar orðið er bjart svo líklega sést það vart við sjóndeildarhring þegar hér er komið sögu
  • 07:49: Sólarupprás
  • 07:58: Tunglsetur
  • 08:48: Deildarmyrkva lýkur – tungl undir sjóndeildarhring
  • 10:01: Hálfskuggamyrkva lýkur – tungl undir sjóndeildarhring

Í heild stendur tunglmyrkvinn yfir í 6 klst og 3m, þar af er almyrkvi í 1 klst og 6m.

Blóðmáni

Við almyrkva verður tunglið rauðleitt á litinn. Ástæðan er sú, að ljós frá sólinni berst í gegnum andrúmsloft Jarðar og bregður rauðum blæ á tunglið. Sólarljósið ferðast í gegnum þykkara andrúmsloft sem dreifir bláu ljósi burt á meðan rautt, appelsínugult og gult ljós berst í gegn og lýsir upp tunglið. Rauði liturinn veldur því, að almyrkvar á tungli eru stundum kallaðir „blóðmánar“.

Roðinn er ljós frá öllum sólsetrum og sólarupprásum á Jörðinni í einu. Rauði liturinn er misbjartur eða -dökkur, allt eftir því hve rykugt eða skýjað andrúmsloftið er. Í tilviki blóðmánans 14. mars má búast við að myrkvinn verð fremur koparlitaður. Við almyrkvann ætti norðurendi tunglsins að vera nokkuð bjartur, rétt eins og suðurendinn á myndinni hér undir, vegna nálægðar við efri jaðar jarðskuggans.

Almyrkvi á tungli í september 2015. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Hvernig get ég fylgst með myrkvanum?

Ekki er þörf á neinum sjóntækjum til að sjá tunglmyrkvann, öfugt við sólmyrkva. Aftur á móti er skemmtilegra að fylgjast með tunglmyrkvum í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka.

Hvernig tek ég mynd af myrkvanum?

Auðvelt er að taka myndir af tunglmyrkvum með DSLR eða speglalausum myndavélum og góðri linsu með langa brennivídd, t.d. 400mm og lengri. Nota þarf stöðugan þrífót á meðan almyrkvanum stendur þegar lengja þarf lýsingartímann.

Erfiðara er að taka mynd af tunglmyrkva með snjallsíma því skífan verður agnarsmá. Þess í stað mælum við með því að nota stjörnusjónauka og taka mynd í gegnum augngler sjónaukans, eða kaupa þar til gert millistykki.

Vandaður sjónauki á rafdrifnu sjónaukastæði er vitaskuld besta leiðin til að fanga fegurð myrkvans á mynd.

Hvað fleira sé ég á himninum?

Við almyrkvann er tunglið í Ljónsmerkinu. Hærra á himni, norðvestan við tunglið, er Arktúrus í Hjarðmanninum, áberand rauðgul stjarna. Mars sest í vestri þegar líður á morguninn svo engin reikistjarna er á lofti á meðan myrkvanum stendur.

Almyrkvi á tungli 14. mars 2025

Hvers vegna verða og tunglmyrkvar?

Tunglmyrkvar verða þegar sólin, Jörðin og tunglið raðast í beina línu svo tunglið gengur inn í skugga Jarðar. Við almyrkva fer tunglið inn í dimmasta hluta jarðskuggans, sem kallast alskuggi. Í alskugganum tekur tunglið á sig rauðleitann blæ og eru þeir þess vegna stundum kallaðir „blóðmánar“.

Tunglmyrkvar eru ekki mánaðarleg fyrirbæri því braut tunglsins um Jörðina hallar um 5 gráður, svo oftast fer tunglið yfir eða undir jarðskuggann.

Deildarmyrkvi á sólu 29. mars

Tveimur vikum síðar verður deildarmyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi. Til að fylgjast með honum þarf sólmyrkvagleraugu.

Hvenær verða næstu tunglmyrkvar?

Næstu deildar- og tunglmyrkvar sem sjást frá Íslandi verða:

  • 7. september 2025 - Almyrkvi - tunglið er almyrkvað þegar það rís
  • 28. ágúst 2026 - Deildarmyrkvi
  • 12.janúar 2028 - Deildarmyrkvi
  • 31. desember 2028 - Almyrkvi
  • 26. júní 2029 - Almyrkvi
  • 20. desember 2029 - Almyrkvi
  • 18. október 2032 - Almyrkvi
  • 14. apríl 2033 - Almyrkvi
Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.

Til baka