Að morgni laugardagsins 29. mars 2025 verður umtalsverður deildarmyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi öllu, ef veður leyfir.
Í Reykjavík hefst deildarmyrkvinn kl 10:05:49 þegar sól er í 19 gráðu hæð yfir sjóndeildarhring í suðaustri. Þegar myrkvinn nær hámarki kl. 11:05:36 hylur tunglið 67,6% af sólinni. Tunglið er svo farið frá sólinni kl. 12:07:13. Fylgstu með skýjahuluspánni hér á Iceland at Night.
Sólmyrkvinn sést ekki aðeins frá Íslandi, heldur líka norðausturhluta Bandaríkjanna, austurhluta Kanada, Grænlandi, Evrópu, norðvestur Afríku og norðvestur Rússlandi. Deildarmyrkvinn er mestur yfir Quebec þar sem 93% skífu sólar er hulinn.
Á Íslandi sést mestur myrkvi frá Vesturbyggð á sunnanverðum Vestfjörðum, þaðan sem tunglið hylur 75,3% sólar.
Sólmyrkvinn verður tveimur vikum eftir almyrkva á tungli. Við myrkvann er sólin í Fiskamerkinu.
Smelltu á gagnvirka kortið til að sjá tímasetningar fyrir alla staði á Íslandi.
Sólmyrkvar verða þegar tunglið er nýtt og gengur fyrir sólina og varpar skugga á Jörðina. Þegar tunglið hylur sólina að hluta verða deildarmyrkvar en þegar tunglið fer fyrir sólina alla verður almyrkvi. Deildarmyrkvar sjást frá mun víðfeðmara svæði en almyrkvar.
Sporbraut tunglsins um Jörðina hallar lítið eitt svo oftast fer tunglskugginn undir eða yfir Jörðina.
Til að fylgjast með sólmyrkvanum er nauðsynlegt að nota sólmyrkvagleraugu. Ef ætlunin er að fylgjast með myrkvanum í gegnum sjónauka verður að fara með gát og nota sérstakar sólarsíur sem settar eru á fremri enda sjónaukans.
Þú getur keypt gleraugu frá okkur og þannig stutt við vefina okkar og fræðsluverkefni í tilefni almyrkvans 2026. Skoðaðu úrvalið á solmyrkvagleraugu.is
Deildarmyrkvinn 29. mars er lokaæfingin fyrir almyrkvann sem bíður okkar 12. ágúst 2026.
Nota þarf sérstakar sólarsíur til að taka myndir af sólmyrkvanum.
Fjölmiðlum og öðrum er frjálst að nota ljósmyndir og skýringamyndir sem hér birtast, af því gefnu að vísað sé til þess að myndirnar séu fengnar frá icelandatnight.is
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.