Iceland at Night

Tunglið myrkvar Mars (myndir)

Að morgni 18. desember 2024 gekk tunglið fyrir Mars frá Íslandi séð.

Í hverjum mánuði stígur tunglið himneskan dans við einhverja af reikistjörnunum. Oftast verður falleg samstaða (e. conjunction) en annað slagið raðast náttúran þannig upp, að tunglið gengur fyrir reikistjörnu og myrkvar hana. Þetta kallast stjörnumyrkvi (e. occultation).

Tunglið er auðvitað miklu nær okkur en reikistjörnurnar, svo staðsetning athuganda á Jörðinni skipti öllu máli um hvort samstaða verði eða stjörnumyrkvi. Þess vegna sjást stjörnumyrkvar aðeins frá mjög afmörkuðu svæði á Jörðinni.

Í þetta sinn vildi svo heppilega til að stjörnumyrkvinn sást einna best frá Íslandi. Fylgdumst við því að sjálfsögðu grannt með fegurðinni. Gísli Már Árnason, annar af umsjónarmönnum Iceland at Night, tók þessar glæsilegu myndir frá Kópavogi

Samsett mynd af tunglinu myrkva Mars. Mynd: Gísli Már Árnason

Hvenær gerist þetta næst?

Tunglið gekk seinast fyrir Mars frá Íslandi séð 5. desember 2020. Næst gerist það að kvöldi 9. febrúar 2025. Þá hefst myrkvinn kl. 18:30 og lýkur kl. 19:28. Fylgstu með!

Mars í gagnstöðu 16. janúar 2025

Mars er ein fjögurra reikistjarna sem sjást á himninum þessar vikurnar en hinar eru Venus, Satúrnus og Júpíter.

Þann 12. janúar 2025 verður Mars næst Jörðu, þá í um 96 milljón km fjarlægð frá okkur. Fjórum dögum seinna, þann 16. janúar, verður Mars í gagnstöðu við Jörð. Það þýðir að Mars er á lofti allar myrkurstundir því hún rís við sólsetur, er hæst á lofti í suðri um miðnætti og sest við sólarupprás.

Oft er best að skoða Mars þegar reikistjarnan er í gagnstöðu en sú er þó ekki raunin nú. Sökum mikillar fjarlægðar er Mars einstaklega lítill að sjá í áhugamannasjónauka.

Næst liggur Mars mjög vel við athugun í september 2035. Þann 11. september það ár verður reikistjarnan næst Jörðu, þá aðeins 56,9 milljónir km í burtu. Mars verður þá reyndar fremur lágt á lofti í milli stjörnumerkjanna Fiskanna og Vatnsberans. Við hlökkum að sjálfsögðu til!

Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.

Til baka