Iceland at Night

Norðurljósastormurinn 10.-11. október 2024

Óvenju glæsileg, litrík og tilkomumikil norðurljósadýrð skreytti himinninn yfir Íslandi og um nánast allan heim að kvöldi 10. október og aðfaranótt 11. október 2024. Segulstormurinn var sá sjötti öflugasti frá árinu 1996 og næstöflugasti í yfirstandandi sólblettasveiflu á eftir storminum mikla 10.-11. maí 2024.

Hvað gerðist? Öflugur sólblossi og hjúp-kórónuskvetta

Klukkan 01:56 aðfaranótt 9. október varð öflugur X1,8 sólblossi í kringum sólblettasvæðið AR 3848 og nam Solar Dynamics Observatory gervitungl NASA útfjólubláa ljósið frá honum.

Blossinn stóð yfir í meira en fimm klukkustundir og dugði það til þess að þeyta mikilli og kröftugri kórónuskvettu í átt að Jörðinni.

Kórónuskvetta er íslenska hugtakið yfir coronal mass ejection. Kórónuskvettur eru skeifulaga eða croissant-laga ský úr hraðfleygum rafhlöðnum ögnum, aðallega rafeindum.

Kórónuskvettan 9. október var það sem kallast hjúp-kórónuskvetta (e. Halo CME) sem þýddi að hún stefndi beint í átt til Jarðar. 

Gögn frá gervitunglunum voru notuð til að reikna út hraða, þéttleika og stefnu kórónuskvettunnar og gerðu spár ráð fyrir að hún skylli á Jörðinni í kringum kl. 14:00 fimmtudaginn 10. október með óvissu upp á sjö klukkustundir til og frá. 

Af hverju varð stormurinn svona litríkur?

Kórónuskvettur eru mishraðar, misþéttar og hafa misháan segulsviðsstyrk. Þegar kórónuskvetta er hröð og segulsviðsstyrkur hennar hár, eins og 10. október 2024, komast rafeindirnar dýpra inn í andrúmsloftið. Krafturinn er meiri til þess að framkalla björt og litrík norðurljós.

Litadýrðin fer eftir því hvaða sameindir og atóm örvast og í hvaða hæð. Því hærri sem þéttleiki sólvindsins er, þeim mun meiri verður litadýrðin. Í tilviki stormsins 10. október 2024 náði þéttleikinn rúmlega 13 róteindum á rúmsentímetra en til samanburðar er meðalþéttleikinn 4 róteindir á rúmsentímetra.