Iceland at Night

Norðurljósastormurinn 10.-11. október 2024

Óvenju glæsileg, litrík og tilkomumikil norðurljósadýrð skreytti himinninn yfir Íslandi og um nánast allan heim 10.-11. október 2024.

Segulstormurinn 10.-11. október 2024 er einn sá mesti sem orðið hefur á Jörðinni í þrjátíu ár. Stormar af þessu tagi eru ekki ýkja algengir en gerast annað slagið þegar sólvirkni nálgast hámarkið í ellefu ára sólblettasveiflunni.

Nálægt hámarki verða til mörg virk sólblettasvæði nálægt miðbaug sólar. Sólblettir eru svæði á sólinni þar sem segulsviðið er staðbundið mjög sterkt og hindrar uppstreymi heitara gass. Í kringum blettina flækjast segulsviðslínurnar saman og strekkjast eins ofstrekt teygja. Ef línurnar slitna verður sólblossi og fylgir stundum kórónugos.

Sólblettasvæðið AR 3848

Í byrjun október 2024 birtist sólblettahópurinn AR 3848 á vinstri jaðri sólar. Sýndi hópurinn þá strax merki um sterkt og flækt segulsvið sem líklegt væri til að leiða til öflugra sólblossa. Hópurinn var á stærð við reikistjörnuna Neptúnus, um það bil fjórar Jarðir á breidd.

Sunspot region AR  3848

X1,8 sólblossi

Klukkan 01:56 aðfaranótt 9. október varð öflugur X1,8 sólblossi í kringum AR 3848 og nam Solar Dynamics Observatory gervitungl NASA útfjólubláa ljósið frá honum. Háorkugeislun frá blossanum olli truflunum á jónahvolfi Jarðar sem aftur olli fjarskiptatruflunum í Japan, Kína, suðaustur Asíu, Ástralíu og hluta Kyrrahafs

X1.8 solar flare on October 9, 2024

Kórónugos

Blossinn stóð yfir í meira en fimm klukkustundir og dugði til að þeyta miklu og kröftugu kórónugosi í átt að Jörðinni. Gosið sást vel í kórónusjá í SOHO gervitungli NASA og ESA ásamt halastjörnunni Tsuchinshan-ATLAS.

October 8 2024 coronal mass ejection

Kórónugos (eða kórónuskvetta) er íslenska hugtakið yfir coronal mass ejection. Kórónugos eru skeifulaga eða croissant-laga ský úr hraðfleygum rafhlöðnum ögnum, aðallega rafeindum. Þau ferðast mishratt, eru misþétt og hafa misháan segulsviðsstyrk. Í þessu tilviki varð hjúp-kórónuskvetta (e. Halo CME) sem þýddi að hún stefndi beint í átt að Jörðu.

Gögn frá gervitunglum voru notuð til að reikna út hraða, þéttleika og stefnu kórónuskvettunnar. Hraðinn á rafagnaskýinu mældist 2,4 milljón km á klukkustund og gerðu spár ráð fyrir að það skylli á Jörðinni í kringum kl. 15:00 fimmtudaginn 10. október, með óvissu upp á sjö klukkustundir, til og frá.

Enlil coronal mass ejection model

Spárnar rættust og sýndu mælar að mjög öflugur stormur (G4, Kp 8) skall á skömmu eftir háegi 10. október. Segulstormurinn var sá sjötti öflugasti frá árinu 1996 og næstöflugasti í yfirstandandi sólblettasveiflu (25) á eftir storminum mikla 10.-11. maí 2024.

October 10-11 2024 geomagnetic storm

Af hverju varð stormurinn svona litríkur?

Þegar kórónuskvetta er hröð og þétt og segulsviðsstyrkurinn hár, eins og 10. október 2024, er krafturinn meiri til að framkalla björt og litrík norðurljós. Segulsviðið hristist og titrar á ofsafenginn hátt sem hraðar rafeindum dýpra inn í andrúmsloftið.

Í storminum 10.-11. október 2024 var hraði sólvindsins í kringum 700 km/s. Sviðsstyrkurinn náði 44 nanóTesla og Bz suður-gildið -45 nT. Öll þessi gildi eru svo há að stormurinn gat varla annað en orðið litríkur og ógleymanlegur. Þessi gildi eru sömuleiðis þau sem norðurljósaunnendur ættu að vakta miklu frekar en Kp-gildið.

Historic October 10-11, 2024 aurora storm seen from the Blue Lagoon in Iceland. Credit: Sævar Helgi Bragason / icelandatnight.is

Litadýrðin fer eftir því hvaða sameindir og atóm örvast og í hvaða hæð. Því hærri sem þéttleiki sólvindsins er, þeim mun meiri verður litadýrðin. Í tilviki stormsins 10. október 2024 náði þéttleikinn rúmlega 13 róteindum á rúmsentímetra og fór á köflum yfir 20 róteindir en til samanburðar er meðalþéttleikinn 4 róteindir á rúmsentímetra.

Í Segulmælingastöðinni í Leirvogi lék allt á reiðiskjálfi og komst staðbundna K-gildið upp í 9.

Leirvogur Magnetic Observatory October 10, 2024
Leirvogur Magnetic Observatory October 11, 2024

Myndasafn

Við vorum staddir á Retreat hóteli Bláa lónsins þetta kvöld og fönguðum sjónarspilið stórfenglega á myndskeið.

Fyrst er horft í suðvesturátt.

Og þá í suðausturátt. Þetta kvöld var rauði bjarminn sem sést í byrjun svo áberandi, að um stundarkron var sem eldgos væri hafið.

Eftir miðnætti frá Hvassahrauni á Reykjanesskaga.

Ekki hika við að senda okkur myndir ef þú vilt deila dýrðinni með okkur og öðrum.

Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.

Til baka