Iceland at Night

Sjáðu halastjörnuna Tsuchinshan-ATLAS á himninum yfir Íslandi

Frá og með laugardagskvöldinu 12. október verður hægt að sjá halastjörnuna Tsuchinshan-ATLAS á himninum yfir Íslandi, skömmu eftir sólsetur. Í fyrstu verður halastjarnan mjög nálægt sjóndeildarhring í vestri svo gæta verður þess að hvorki fjöll, háreistar byggingar eða gróður byrgi sýn. Halastjarnan er ein sú bjartasta undanfarna áratugi og verður einkar falleg á himni. Auðveldara verður að koma auga á hana snemma í næstu viku (frá og með 14./15. október).

**Uppfært 14 október: Halastjarnan er farin að sjást ágætlega á himni, aðeins daufari en búist var við og eru myndir farnar að birtast, t.d. glæsileg mynd með Snæfellsjökul í forgrunni.

Þá náði Gísli Már Árnason fallegum myndum af halastjörnunni frá Kópavogi.

Birtuaukning Tsuchinshan-ATLAS undanfarið hefur verið í takti við bjartsýnustu spár. Fátt er því til fyrirstöðu að hún verði bjartasta halastjarn sem sést hefur frá Íslandi síðan árið 2007 þegar McNaught prýddi morgunhiminninn. Fylgstu með skýjahuluspánni á Iceland at Night.

Við verðum að sjálfsögðu á halastjörnuvaktinni og munum birta myndir af henni hér og á Instagram.

Hvert á að horfa?

Comet Tsuchinshan-ATLAS October 15, 2024. Credit: TheSkyLive.com

Besti tíminn til að sjá halastjörnuna frá Íslandi er frá 12.-15. október 2024, þegar hún er komin ögn hærra á loft eftir sólsetur. Prófaðu að líta eftir henni þá, um klukkustund eftir sólsetur (ca. 19:30 og upp úr), mjög lágt í vestri (í átt að sólsetrinu, notaðu áttavitann í símanum þínum ef þú þekkir ekki vestur). 

Tímasetningarnar hér undir eru nálgun og miðast við óheft útsýni til vesturs og enda almannarökkurs í Reykjavík, þegar ætti að vera orðið nægilega dimmt. Notaðu tímasetningarnar sem viðmið um hvenær best er að vera úti til að sjá hana.

12. október 2024 - Halastjarnan er næst Jörðu, 70,5 milljón kílómetra í burtu og björtust, álíka björt og Júpíter. 13. október ætti halinn að hafa snúist og beinast frá sólu, upp himinninn. Leitaðu að henni um kl 19:00. Nú ætti hún að sjást með berum augum.

Birtist: 19:04 (6,4° yfir sjóndeildarhring)

Sest: 20:00

13. október 2024 - Þetta kvöld er kjörið tækifærið til að skyggnast eftir halanum rísa upp á himinninn eftir sólsetur.

Birtist: 19:01 (9° yfir sjóndeildarhring)

Sest: 20:30

14.október - Halastjarnan ætti að vera orðin vel sýnileg berum augum. Líttu í vesturátt um það bil klukkustund eftir sólsetur. Fylgstu með frá 19:30 til 20:15 eða svo. Beindu símamyndavél í áttina og taktu mynd í 3 sekúndur. Halastjarnan ætti að blasa við.

Birtist: 18:58 (12° yfir sjóndeildarhring)

Sest: 20:55

Comet Tsuchinshan-ATLAS map. Credit: Sky & Telescope

15. október 2024 - Þegar hér er komið sögu er orðið mun auðveldara að koma auga á halastjörnuna sem verður nálægt kúluþyrpingunni Messier 5 í Höggorminum. Glæsilegt ljósmyndatækifæri með víðlinsum og víðum stjörnusjónaukum! Prófaðu að horfa með handsjónauka.

Birtist: 19:00 (14° yfir sjóndeildarhring)

Sest: 21:15

15-20. október 2024 - Halastjarnan færist hærra á loft úr kvöldroðanum en dofnar. Birta af næstum fullu tungli truflar.

20. október-4. nóvember verður halastjarnan hátt á tunglskinslausum himni. Þá er best að sjá hana með því að fara út fyrir borgar- og bæjarmörk svo ljósmengun trufli ekki. Halinn gæti verið mjög langur og sérstaklega glæsilegur á ljósmyndum.

Fyrir aðra staði á landinu er gott að nýta kort TheSkyLive.com.

Hafðu í huga að kortið hér frá Sky & Telescope miðast ekki við hnattstöðu Íslands svo Venus er ekki á lofti frá okkur séð.

Hvað eru halastjörnur?

Halastjarnan C/2022 E3 ZTF þann 17.01.2023. Mynd: Gísli Már Árnason

Halastjörnur eru björg eða fjöll úr ís og ryki — gaddfreðnir, skítugir ísjakar úr ystu og köldustu kimum sólkerfisins. Flestar halastjörnur, eins og Tsuchinshan-ATLAS, eru ættaðar úr Oortsskýinu sem umlykur sólina og er leifar frá því að sólkerfið okkar myndaðist. 

Þegar halastjarna fellur inn í sólkerfið byrjar ísinn að gufa upp. Þá myndast ís- og rykhjúpur eða haddur í kringum kjarnann sem saman myndar höfuð halastjörnunnar. Sólvindurinn, sem veldur norðurljósum, blæs íshjúpnum burt svo til verður hali til. Halinn snýr þess vegna alltaf frá sólinni. 

Kjarni halastjörnunnar Tsuchinshan er talinn vera rúmlega 2 km í þvermál. Halastjarnan er því ekki ósvipuð Öræfajökli að stærð.

Af hverju heitir halastjarnan C/2023 A3 (Tsuchinshan-ATLAS)?

Comet Tsuchinshan over Hafnarfjörður, Iceland, October 13, 2024. Credit: Sævar Helgi Bragason
  • C/2023 vísar til þess að halastjarnan er langferðahalastjarna sem ekki hefur sést áður og fannst árið 2023.
  • A3 merkir að halastjarnan er sú þriðja sem finnst á fyrri helmingi janúarmánaðar 2023. Hefði hún fundist seinni hluta janúar hefði hún fengið nafnið B.
  • Tsuchinshan er dregið af nafni stjörnustöðvarinnar á Fjólubláafjalli í Kína á mandarín, þaðan sem hún sást fyrst á ljósmyndum sem teknar voru 9. janúar árið 2023. Í fyrstu var hún talin smástirni.
  • ATLAS stendur fyrir Asteroid Terrestrial-impact Last Alert System og er sjónauki á vegum Hawaii-háskóla staðsettur í Sutherland í Suður Afríku. ATLAS verkefnið staðfesti að í raun var um halastjörnu að ræða en ekki smástirni.