Á Íslandi rís tunglið lítillega deildarmyrkvað á Austurlandi en í hálfskugganum í Reykjavik
Að kvöldi sunnudagsins 7. september 2025 verður almyrkvi á tungli sjáanlegur frá Ástralíu, Asíu, Afríku og Evrópu. Á Austurlandi rís lítillega deildarmyrkvað tungl kl. 19:46 en er komið í hálfskuggann þegar það rís í Reykjavík hálftíma síðar. Austfirðingar eru því þeir einu sem geta séð deildarmyrkvað tungl á Íslandi.
Seinast sást tunglmyrkvi frá Íslandi 14. mars 2025 og næst 28. ágúst 2026.
Í heild stendur tunglmyrkvinn yfir í 5 klst 27 mínútur og 22 sekúndur. Þar af stendur almyrkvinn yfir í 1 klst 22 mínútur og 41 sekúndu.
Við myrkvann er tunglið í stjörnumerkinu Vatnsberanum.
Við almyrkva verður tunglið rauðleitt á litinn. Ástæðan er sú, að ljós frá sólinni berst í gegnum andrúmsloft Jarðar og bregður rauðum blæ á tunglið. Sólarljósið ferðast í gegnum þykkara andrúmsloft sem dreifir bláu ljósi burt á meðan rautt, appelsínugult og gult ljós berst í gegn og lýsir upp tunglið. Rauði liturinn veldur því, að almyrkvar á tungli eru stundum kallaðir „blóðmánar“.
Roðinn er ljós frá öllum sólsetrum og sólarupprásum á Jörðinni í einu. Rauði liturinn er misbjartur eða -dökkur, allt eftir því hve rykugt eða skýjað andrúmsloftið er.
Ekki er þörf á neinum sjóntækjum til að sjá tunglmyrkvann, öfugt við sólmyrkva. Aftur á móti er skemmtilegra að fylgjast með tunglmyrkvum í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka.
Auðvelt er að taka myndir af tunglmyrkvum með DSLR eða speglalausum myndavélum og góðri linsu með langa brennivídd, t.d. 400mm og lengri.
Nota þarf stöðugan þrífót á meðan almyrkvanum stendur þegar lengja þarf lýsingartímann.
Í tilviki tunglsmyrkvans 7. september 2025 geta Austfirðingar fangað lítillega deildarmyrkvað tungl rísa. Gæta þarf þess að fjöll byrgi ekki sýn.
Tunglmyrkvar verða þegar sólin, Jörðin og tunglið raðast í beina línu svo tunglið gengur inn í skugga Jarðar. Við almyrkva fer tunglið inn í dimmasta hluta jarðskuggans, sem kallast alskuggi. Hálfskugginn er mun daufari og hálfskuggamyrkvar því vart sýnilegir með berum augum.
Tunglmyrkvar eru ekki mánaðarleg fyrirbæri því braut tunglsins um Jörðina hallar um 5 gráður, svo oftast fer tunglið yfir eða undir jarðskuggann.
Að kvöldi 7. september skín Satúrnus gulhvítur vinstra megin við tunglið frá okkur séð. Um miðnætti rís Júpíter skær í norðaustri, skammt frá Tvíburunum. Um kl. 04 að morgni rís Venus ákaflega skær í norðaustri.
Tveimur vikum síðar verður deildarmyrkvi á sólu sjáanlegur frá suður Kyrrahafi, Nýja Sjálandi og Suðurheimskautinu. Í Nýja Sjálandi verður ríflega 80% af skífu sólar hulin. Íslendingar sem staddir eru þar þurfa að nota sólmyrkvagleraugu til að fylgjast með deildarmyrkvanum.
Næstu deildar- og almyrkvar á tungli sem sjást frá Íslandi verða:
Myrkvaútreikningar: Fred Espenak, www.EclipseWise.com
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.