Iceland at Night

Vígahnöttur að morgni 22. nóvember 2024

Að morgni föstudagsins 22. nóvember sást fallegur vígahnöttur á vesturhimni. Vígahnötturinn sprakk yfir Grænlandshafi um það bil 200 km vestur af Reykjavík.

Klukkan 07:28:43 að morgni 22. nóvember sást skær vígahnöttur á vesturhimni Íslands. Bárust þónokkrar tilkynningar um hann.

Vígahnettir eru loftsteinahröp sem verða skærari en björtustu reikistjörnur þegar þeir splundrast.

Áhugaljósmyndarinn Fanney Gunnarsdóttir var stödd á Háey í Dyrhólaey þegar hún fangaði vígahnöttinn á glæsilega mynd. Veitti hún okkur góðfúslegt leyfi til þess að birta hana hér. Á myndinni sést bjarminn frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga.

Vígahnötturinn að morgni 22. nóvember 2024. Mynd: Fanney Gunnarsdóttir

Á mynd sem Fanney tók kl. 07:29:21 sést rykslóð sem steinninn skildi eftir og var hún enn sýnileg fimm mínútum síðar. Rykslóðin bendir til þess, að loftsteinninn hafi splundrast í yfir 60 km hæð. Háloftavindar feyktu slóðinni til og leystu hana á endanum upp.

Reykslóðin eftir vígahnöttinn 22. nóvember 2024. Mynd: Fanney Gunnarsdóttir

Útreikningar okkar sýna, að vígahnötturinn sprakk í um 12 gráðu hæð yfir sjóndeildarhring. Það bendir til þess, að steinninn hefur líklega sprungið í um eða yfir 400 km fjarlægð frá athuganda eða tæpa 200 km vestur af Reykjavík, yfir hafinu milli Íslands og Grænlands. Birta vígahnattarins bendir til þess að hann hafi verið smár, ef til vill á stærð við jarðarber eða svo.

Líkleg stefna og staðsetning loftsteins

Kortið hér að ofan er af vefsíðu Já.is.

Hafa ber í huga að þetta er gróft mat byggt á einni ljósmynd svo veruleg óvissa getur verið í útkomunni. Fleiri myndir myndu hjálpa okkur að reikna steinninn enn betur út. Ef þú lumar á myndefni, ekki hika við að hafa samband.

Uppfært 12. desember

Pálína Sigurðardóttir var stödd við Eyrarbakka þegar hún fangaði vígahnöttinn á mynd. Hún segir: „Ég náði þessari fyrir algjöra tilviljun, klukkan mín sagði 7.43. Var stödd í fjörunni hjá Eyrarbakka. Gæðin eru vissulega lítil, þetta er símamynd.“

Vígahnöttur 22. nóvember 2024. Mynd: Pálína Sigurðardóttir

Mynd Pálinu kemur ágætlega heim og saman við áætlaða staðsetningu steinsins út frá fyrstu upplýsingum. Sennilegast hefur steinninn verið ögn nær Íslandi, eða í innan við 200 km fjarlægð frá Reykjavík.

Hvað sést á myndinni?

Á myndinni er horft í átt að stjörnumerkinu Nautinu og Hrútnum. Á henni sést reikistjarnan Úranus.

Vígahnöttur 22. nóvember 2024. Mynd: Fanney Gunnarsdóttir
Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.

Til baka