Hróður Grindavíkur berst ekki aðeins um Jörðina heldur út í sólkerfið
Smástirni sem fannst árið 1999 hefur verið verið gefið nafnið (24090) Grindavík. Alþjóðasamband stjarnfræðinga, sem heldur utan um örnefni í sólkerfinu, samþykkti nafnið nú í ágúst eftir að bærinn komst í heimsfréttirnar í eldgosunum á Reykjanesskaga. (24090) vísar til raðnúmers smástirnisins í skrá Minor Planet Center.
Smástirnið fannst í Catalina Sky Survey verkefninu í Arizona í Bandaríkjunum þann 29. október árið 1999. Var því þá gefið tímabundna skráarheitið 1999 UY8.
(24090) Grindavík er í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Meðalfjarlægð þess frá sólu er 2,3 stjarnfræðieiningar eða 345 milljónir kílómetra sem er rúmlega tvöföld fjarlægð Jarðar frá sólu.
Grindavík ferðast einn hring um sólina á 3,57 árum eða þremur árum, sex mánuðum og þremur vikum. Sporbrautin hallar um 5 gráður miðað við sporbraut Jarðar.
Hér er hægt að fylgjast með ferðalagi (24090) Grindavík í sólkerfinu.
Mjög lítið er vitað um (24090) Grindavík annað en sporbrautina sem er vel þekkt. Birta þess (15,1) og endurskinshlutfall (0,159) benda til þess að smástirnið sé í kringum 3 km á breidd. Endurskinshlutfallið bendir einnig til þess að smástirnið sé úr einhvers konar blöndu bergs og málma.
Grindavík er þó ekki aðeins að finna á Jörðinni og í smástirnabeltinu, heldur líka Mars. Á norðurhveli rauðu reikistjörnunnar er 12 km breiður gígur sem ber nafn bæjarins. '
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.