Halastjarnan Lemmon 18. október 2025. Mynd: Gísli Már Árnason / Iceland at Night

Sjáðu halastjörnuna Lemmon á himninum yfir Íslandi

Halastjarnan C/2025 A6 (Lemmon) sést naumlega með berum augum við bestu aðstæður en er vel greinileg með handsjónauka eða stjörnusjónauka.

Halastjarnan C/2025 A6 (Lemmon) sést á himni yfir Íslandi þessa dagana. Hún sést naumlega með berum augum við bestu aðstæður en er vel greinileg með handsjónauka eða stjörnusjónauka. Lemmon verður næst Jörðu 21. október, þá ríflega 89 milljón kílómetra í burtu. 

Halastjarnan er glæsileg á ljósmyndum þar sem ljósi hennar er safnað á nokkrum sekúndum. Gísli Már Árnason, ljósmyndari Iceland at Night, tók þessa mynd af halastjörnunni Lemmon laugardagskvöldið 18. október. Á sama tíma stóð norðurljósahviða yfir sem lýsti upp himinn og Jörð.

Halastjarnan Lemmon 18. október 2025. Mynd: Gísli Már Árnason

Hvernig get ég séð halastjörnuna Lemmon?

Í október sést halastjarnan Lemmon best lágt á lofti á kvöldhimninum í vestri. Einfaldasta leiðin til að sjá hana er að:

  1. Horfa í vesturátt um og upp úr kl. 20
  2. Nota kortið hér undir eða snjallsímaöpp eins og Stellarium eða theskylive.com til að sjá staðsetningu halastjörnunnar
  3. Skanna svæðið með handsjónauka
  4. Gefa sér tíma þegar leitað er að henni 

Í handsjónauka blasir halastjarnan við eins og lítill „loðinn“ bolti. Halinn er ekki mjög augljós en þó greinilegur en í sjónaukanum örlar á áberandi fölgrænum lit. Græna litinn má rekja til tvíatóma kolefnis (C2) sem brotnar niður í sólarljósinu og geislar grænu ljósi þegar það örvast.

Halastjarnan Lemmon 21. október 2025

Hvenær er halastjarnan Lemmon næst Jörðu?

Halastjarnan Lemmon verður næst Jörðu þriðjudaginn 21. október 2025, þá í 89,2 milljóna kílómetra fjarlægð frá okkur, eða sem nemur rúmlega hálfri vegalengdinni milli Jarðar og sólar. Á þeim tíma þýtur halastjarnan framhjá okkur á 217 þúsund kílómetra hraða á klukkustund.

Sjá má staðsetningu Lemmon í sólkerfinu hér.

Eftir 21. október fer halastjarnan lækkandi á himni frá Íslandi. Milli 21. og 24. október er hana að finna í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (Boötes) en færist svo yfir Höggorminn og Naðurvalda (Ophiuchus) þegar komið er inn í nóvember. Þá er betra að leita eftir henni á vesturhimni upp úr kl. 19.

Halastjarnan Lemmon 1. nóvember 2025 í Naðurvalda.

Af hverju heitir halastjarnan Lemmon?

Halastjarnan fannst í leitarverkefni sem kallast Mount Lemmon Survey og dregur nafn sitt af því. Hún fannst á myndum sem teknar voru 3. janúar 2025 og er sjötta halastjarnan sem kom í leitirnar það ár. Þess vegna fékk hún skráarheitið 2025 A6.

Umferðartími hennar um sólina er 1350 ár en eftir sólnánd 8. nóvember á þessu ári mun hann mun styttast niður í 1150 ár. Lemmon sést því aftur á himni frá Jörðinni í kringum árið 3175.

Halastjörnur eru skítugir ísklumpar í sólkerfinu okkar. Þær eru leifar frá myndun sólkerfisins fyrir 4,6 milljörðum ára. Halastjörnur eru að mestu leyti úr vatni en innihalda líka efni eins og frosið kolmónoxíð og koldíoxíð. Þegar halastjörnur færast nær sólinni byrja þær að gufa upp. Þá myndast haddur eða hjúpur í kringum þær sem sólvindurinn feykir burt svo hali verður til.

Halastjarnan Lemmon 18. október 2025. Mynd: Gísli Már Árnason / Iceland at Night

Hvað um halastjörnuna 3I/Atlas, get ég séð hana?

Milligeimshalastjarnan 3I/Atlas er of dauf til að sjást með berum augum eða handsjónauka. Hún verður næst sólu 29. október 2025 en næst Jörðu 19. desember 2025, þá í 167 milljón kílómetra fjarlægð frá okkur. Birta hennar þá verður svo lítil að stóra sjónauka þarf til að koma auga á hana. 

Engin merki eru um að 3I/Atlas sé nokkuð annað en halastjarna. Hún sýnir flestöll dæmigerð merki þess.

Viltu styðja við Iceland at Night og solmyrkvi2026.is?

Þú getur stutt við fræðsluverkefni vegna sólmyrkvans með því að kaupa sólmyrkvagleraugu, sólarsíur, sólarsjónauka, sjónauka og annan varning sem nýtist til að skoða sólina í vefversluninni okkar, solmyrkvagleraugu.is.

Sólmyrkvagleraugu.is
Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.

Til baka