Norðurljós eru tíðust undir norðurljósabeltinu sem umkringir norðurskautið. Ísland er alltaf undir norðurljósabeltinu sem þýðir að norðurljós sjást á himni á næstum hverju kvöldi.
Á Jörðinni eru norður- og suðurljósabeltin bestu staðirnir til að sjá norður- og suðurljós. Þau eru tvö risavaxin, kleinuhringslaga belti sem umkringja norður- og suðurskautin. Við norðurskautið eru Alaska, Kanada, Grænland, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Síbería undir norðurljósabeltinu. Við suðurskautið er suðurljósabeltið aðallega í kringum Suðurheimskautið. Beltin eru nánast spegilmyndir af hvort öðru, svo ef norðurljós sjást á Íslandi eru suðurljós samtímis á himni yfir Suðurskautinu.
Norðurljósabeltið verður til þar sem rafhlöðnu agnirnar sólvindsins streyma eftir segulsviðslínunum í átt að segulpólum Jarðar. Lofthjúpurinn hindrar þær í að komast neðar en í um það bil 75 km hæð.
Beltin eru venjulega um 500 km breið og í 2000 km radíus frá segulpólunum. Við rólegar aðstæður teygja beltin sig yfir það bil 10 breiddargráður, frá 60° og 70° breiddargráðum norður og suður. Há breiddargráða Íslands veldur því, að við erum alltaf undir norðurljósabeltinu, svo norðurljós sjást á himni öll heiðskír kvöld, bara misáberandi.
Við kröftuga segulstorma breikka beltina og færast sunnar í átt að miðbaug (eða norður ef þú ert á suðurhvelinu). Það þýðir að þegar mikil norðurljósavirkni er þarf athugandi á Íslandi stundum að horfa í suðurátt til að sjá norðurljós.
Segulljós kvikna í kringum segulpólana sem eru um það bil 10 gráðum frá landfræðilegum pólum Jarðar. Í dag norðursegulpóllinn í Kanada sem þýðir að athugandi í Norður-Ameríku sér oftar norðurljós en athugandi í t.d. Kamtsjaka. Þetta er ástæða þess að í segulstorminum 10. maí 2024 sáust norðurljós í suðurhluta Flórída, á 24. breiddargráðu.
Hinumegin á Jörðinni, í Asíu, sást norðurljós sárasjaldan frá lágum breiddargráðum, sem þá eru 20 gráðum neðar segulfarslega séð. Því er öfugt farið á suðurhvelinu þar sem Tasmanía og Nýja Sjáland eru heppilegar staðseett miðað við segulpólinn en t.d. Patagónía í Suður-Ameríku, þaðan sem suðurljósin eru mjög sjadlséð.
Bæði beltin teygja sig líka nær miðbaug á næturhlið Jarðar en daghliðinni. Beltin eru föst á sínum stað en Jörðin snýst undir þeim. Það er einmitt ástæða þess að athugandi á Íslandi er næst beltinu skömmu fyrir miðnætti, eða í kringum 23 á kvöldin. Þetta er líka ástæða þess að norðurljósin sýnast fara frá austri til vesturs.
Klukkan 23 er sömuleiðis segulmiðnætti og ástæða þess að norðurljósin eru tíðust þá. Og þar af leiðandi svarið við einni algengustu spurningu ferðafólks um norðurljós: Hvenær á ég að vera úti til að sjá norðurljósin? Besta svarið er: Rétt fyrir segulmiðnætti. Á Íslandi þýðir það að mestar líkur eru á að þú sjáir norðurljós milli kl. 23:00-03:00.
OVATION Prime norðurljósalíkan NOAA er gagnlegt tól sem gefur þér grófa hugmynd um hvar norðurljós eru og hversu kröftug þau eru líkleg til að vera um 30-90 mínútur fram í tímann. Litakóðinn frá grænu í rautt sýnir líkur þess, að norðurljós séu á himni. Birta og staðsetning norðurljósanna eru venjulega sýnd sem grænt belti miðjað á segulpól Jarðar. Græna beltið verður rautt þegar spáð norðurljós verða kröftugri.
Mikilvægt er að hafa í huga að líkanið er fremur íhaldssamt og hefur sínar takmarkanir. Í fyrsta lagi getur það ekki spáð fyrir um hviður (e. substorms) sem valda kröftugum norðurljósum um himinninn í fáeinar mínútur. Í öðru lagi sýnir líkanið ekki vel hvaðan norðurljósin sjást. Við góð skilyrði geta norðurljós sést í meira en 1000 km fjarlægð frá athuganda, eða þar til jarðbungan skyggir á. Þetta er ekki beinlínis vandamál á Íslandi sem er alltaf undir norðurljósabeltinu.